Gert er ráð fyrir að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ræði fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og íslenskra stjórnvalda í september en nánari tímasetning liggur ekki fyrir.

Þetta kemur fram í skriflegu svari talsmanns sjóðsins í Washington, Simonetta Nardin, til Viðskiptablaðsins. Fulltrúi sjóðsins hér á landi, Franek Rozwadowski, vildi ekki svara fyrirspurn Viðskiptablaðsins um þetta mál þegar eftir því var leitað í dag.

Simonetta Nardin vildi í samtali við Viðskiptablaðsins lítið tjá sig um mögulega  tímasetningu fundar stjórnar sjóðsins um Ísland. Hún vísaði síðar í skriflegu svari til  blaðsins m.a. í fyrri yfirlýsingu sjóðsins um að  stjórnvöld og starfsmenn AGS hefðu náð samkomulagi „um stefnu til að renna stoðum undir endurskoðunina," eins og það er orðað.

Það samkomulag væri nú til skoðunar hjá yfirstjórn AGS. Að því búnu yrði niðurstaðan borin undir stjórn AGS.  Stjórnin myndi funda í september, sem fyrr sagði, en nánari tímasetningu væri ekki hægt að gefa.

Vonuðust eftir endurskoðun í byrjun september

Eins og kunnugt er hefur fyrsta endurskoðunin dregist mjög á langinn. Til stóð um tíma að hún færi fram í ágúst en því var frestað á síðustu stundu.

Þá kom fram í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda að þau vonuðust til þess að stjórn AGS gæti tekið málefni Íslands til endurskoðunar í lok ágúst eða í byrjun september.

Áréttað var í sömu yfirlýsingu að afgreiðsla annars hluta láns AGS til Íslendinga væri háð fyrstu endurskoðun sjóðsins.

Fyrsti fjórðungur láns Norðurlandanna yrði heldur ekki inntur af hendi fyrr en endurskoðun AGS hefði farið fram.