Aðgerðir stjórnvalda þurfa að stemma stigu við verðbólguþrýstingi og hækkandi húsnæðisverði, segir í yfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem stödd er hér á landi í reglubundnu eftirliti um stöðu efnahagsmála. Leggur nefndin meðal annars til að þak verði sett á skuldabyrðarhlutfall lántakenda vegna vaxandi kerfisáhættu í bankakerfinu.

Efnahagshorfur á Íslandi eru taldar jákvæðar en þó háðar töluverðri óvissu. Aðgerðir stjórnvalda þurfa að vera vandlega samræmdar til að festa efnahagsbatann í sessi og byggja upp viðnámsþrótt í ríkisfjármálum.

Helstu áhættuþættir fyrir íslenskt atvinnulíf eru áhrif af völdum stríðsins í Úkraínu, versnandi horfur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og yfirstandandi heimsfaraldur. Innlenda áhættuþætti nefna þau mögulega pattstöðu í viðræðum um nýja kjarasamninga sem geti valdið átökum á vinnumarkaði og truflunum í efnahagslífinu.

Ísland hefur staðið nokkuð vel af sér nýleg efnahagsáföll sem auðveldaði kröftugan viðsnúning hagvaxtar og atvinnu. Íslenskt efnahagslíf standi sterkt að vígi gagnvart mögulegum neikvæðum ytri áföllum. Nú séu hreinar opinberar skuldir um 60% af landsframleiðslu, gjaldeyrisforði nemi 29% af landsframleiðslu og bankakerfið standi traustum fótum, segir í yfirlýsingunni.

Búast við hóflegum hagvexti

AGS áætlar að hagvöxtur verði á bilinu 3,5-4% í ár og að verðbólga verði 7,4% að meðaltali í ár. Hagvöxtur verði drifinn af innlendri eftirspurn og að takmörkuðu leyti af utanríkisviðskiptum sökum minni eftirspurnar eftir íslenskum vörum erlendis vegna truflana á framleiðslukeðjum og meiri erlendri verðbólgu. Áhrif viðskipta við Rússland og Úkraínu hafi takmörkuð áhrif.

Spáð er því að verg landsframleiðsla á föstu verðlagi árið 2027 verði 2% undir því sem leitni hennar fyrir faraldur gaf til kynna vegna hægs bata í ferðaþjónustu. Verðbólgumarkmiðinu verði náð árið 2025 og draga muni úr einkaneyslu í kjölfar aukins aðhalds í peningamálum og ríkisfjármálum.

Útflutningsgreinar munu knýja hagvöxt til meðallangs tíma og vöxtur ferðaþjónustu muni leiða til afgangs í viðskiptum við útlönd á nýjan leik.

Aðgerðir stjórnvalda styðji við stöðugleika

Aðhaldssöm stefna í opinberum fjármálum muni hjálpa til við að ná verðbólgu í markmiðin og endurreisa fjárhagslegan styrk opinberra fjármála á meðan framleiðsluspenna er til staðar.

Starfsfólk sjóðsins áætlar að á næstu fimm árum muni skuldir hins opinbera lækka um 18 prósentustig frá hámarki sínu árið 2020. Opinber fjármál verði nærri jafnvægi fyrir árið 2027. Lykillinn að því að byggja upp varnir og viðnámsþrótt opinberra fjármála undanfarinn áratug hafi verið heildræn nálgun laga um opinber fjármál, og því beri að viðhalda.

Seðlabankinn þurfi að hækka vexti

Stjórnvöld ættu að halda áfram að draga úr peningalegum slaka. „Raunvextir hafa því hækkað nokkuð en þar sem verðbólguvæntingar eru í kringum 5% er aðhald peningastefnunnar enn slakt. Frekari vaxtahækkanir eru líklega nauðsynlegar til að ná verðbólgu og verðbólguvæntingum niður í 2,5% markmið Seðlabankans.“

Þrátt fyrir sterka eiginfjárstöðu bankanna hefur áhætta aukist vegna hækkunar húsnæðisverðs umfram ákvarðandi þætti. Skörp leiðrétting húsnæðisverðs gæti veikt efnahagsreikning heimila og fjármálageirans.

Til að takast á við húsnæðisverðssveifluna leggur sendinefndin annars vegar til að taka á áhættuþáttum tengdum húsnæðismarkaði, til dæmis með innleiðingu þaks á skuldabyrðarhlutfall. Hins vegar þarf að auka hagkvæmni húsnæðis með því að draga úr reglubyrði á byggingageirann og auka framboð húsnæðis. Það er hægt að gera með einföldun á skipulagsreglum, létta á ferlum við öflun byggingarleyfa og samþætting á leyfum og úttektum.

Sala á bönkum

Sendinefndin segir að stjórnvöld og eftirlit Seðlabankans þurfi að tryggja hæfi eigenda bankanna. „Gagnsæi og jafnræði skiptir sköpum til þess að varðveita trúverðugleika allra sem í hlut eiga við sölu á bönkum í ríkiseigu,“ segir í tilkynningunni.

Setja ætti skilyrði fyrir þátttöku fjárfesta og viðmið fyrir hæfi þeirra í regluverki sem snýr að sölu banka í ríkiseigu til þess draga úr orðspors- og stöðugleikaáhættu fyrir ríkið og fjármálakerfið. Seðlabankinn ætti að fara yfir framtíðaráform um sölu banka í ríkiseigu til að tryggja hæfi og heilindi mögulegra fjárfesta.

Stuðli að efnahagslegri fjölbreytni

Leggja þurfi áherslu á að auka samkeppnishæfni, stuðla að nýsköpun og bæta nýtingu auðlinda. Draga þurfi úr íþyngjandi aðstæðum fyrir sprotafyrirtæki og auðvelda reglugerðarumhverfi fyrirtækja að auka framleiðni og stuðla að vexti.