Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvatti í gær stjórnvöld á Spáni og Ítalíu til að fara á hnén, leita á náðir aðildarríkja evrusvæðisins og biðja um lán. Ráðamenn á Ítalíu sögðust ekki þurfa á slíku að halda og er útlit fyrir að Spánverjar fari eini bónleiðina.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Olivier Blanchard, aðalhagfræðingi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að stutt sé í að ráðherrar evruríkjanna komi sér saman um aðgerðir sem muni gera Ítölum og Spánverjum kleift að fjármagna sig með lægri tilkostnaði en á býðst á almennum markaði. Ekki er algjör einhugur um málið en Þjóðverjar eru sagðir við það að missa móðinn í baráttunni gegn skuldakreppunni á evrusvæðinu.

Skilyrðin fyrir því er reyndar sú að stjórnvöld í báðum ríkjum verða að halda sig við þær aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum sem lagt hefur verið upp með.