Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir enn sé langt í land með að samningar náist við Grikki um afhendingu síðasta skammtsins af neyðarlánapakkanum, en Grikkland þarf nauðsynlega á þessum fjármunum að halda til að forðast greiðslufall í mánaðarlok. Talsmaður AGS, Gerry Rice, segir að enn sé breitt bil á milli aðila í flestum veigamestu málunum og að ekkert hafi þokast í samkomulagsátt undanfarið. Ennfremur sé langt í að slíkt samkomulag náist. Kemur þetta fram i frétt Reuters.

Samningateymi AGS hefur verið kallað heim frá Brussel, þar sem viðræður hafa staðið yfir við gríska embættismenn, en talsmenn AGS leggja þó áherslu á að viðræður haldi áfram.

Bankastjóri þýska seðlabankans, Jens Weidmann, sagði að ekki væri mikill tími til stefnu og að hættan á greiðslufalli ykist með hverjum deginum.