Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur fallist á að veita Serbum um 3 milljarða evra neyðarlán til að aðstoða ríkisstjórn landsins við að komast í gegnum sviptingar í efnahagsmálum.

Að sögn Reuters fréttastofunnar verður lánið fyrst og fremst notað í gjaldeyrisvarasjóð landsins, styrkja serbneska dínarinn og  koma stöðugleika á hagkerfi landsins.

Lánveitingin er þó ekki formlega farin í gegn en Retuers hefur eftir talsmanni AGS að allt stefni í að Serbar uppfylli þær kröfur sem sjóðurinn hefur lagt fram og lánið verði formlega veitt í maí.

Í sameiginlegri tilkynningu ríkisstjórnar Serbíu og AGS kemur fram að báðir aðilar hafa náð samkomulagi um lánveitingu og skilyrði og bíður samningurinn nú staðfestingar stjórnar AGS.

Gert er ráð fyrir að hagkerfi Serbíu dragist saman um 2% á þessu ári og hagvöxtur á næsti ári verði enginn.

Frá þessum 3 milljörðum evra dregst þó um 500 milljóna evra lán sem veitt var í byrjun ársins. Því verður þó skuldbreytt og kjör þess falla að nýju láni.