Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) birti í gær nýja skýrslu um horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum.

Í skýrslunni lækkar AGS alþjóðlega hagvaxtarspá sína og spáir nú 3,3% hagvexti á þessu ári en hafði spáð 3,4% í júlí síðastliðnum. Á næsta ári spáir sjóðurinn 3,8% hagvexti og verður hann 0,2% minni en samkvæmt síðustu spá.

AGS segir horfur á Evrusvæðinu, Rússlandi, Mið-Austurlöndum og Japan verri en búist hafði verið við. Spáir sjóðurinn þannig einungis 1,1% hagvexti á Evrusvæðinu á þessu ári en fyrri spá hafði gert ráð fyrir 1,3% hagvexti. Verðbólga á svæðinu stendur nú í 0,3% og er því langt undir 2% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Evrópu.

Horfur í Bandaríkjunum eru hins vegar betri en búist hafði verið við og hækkaði AGS hagvaxtarspána þar úr 0,5% í 2,2%.