*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Erlent 22. maí 2020 15:45

AGS lánar Úkraínu 5 milljarða dollara

Úkraínsk stjórnvöld hafa náð samkomulagi við AGS um fimm milljarða dollara stuðningslán vegna faraldursins.

Ritstjórn
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu.
epa

Úkraínsk stjórnvöld hafa náð samkomulagi við stjórnendur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um fimm milljarða dollara lán, sem jafngildir um 719 milljörðum íslenskra króna, til að styðja við fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Financial Times greinir frá. 

„Samkomulagið mun sjá til þess að Úkraína verður í góðri stöðu til að ná upp hagvexti að nýju og hefja víðtækar umbætur þegar neyðarástandinu lýkur,“ segir Ivanna Vladkova Hollar, fulltrúi AGS í Úkraínu, í tilkynningu sjóðsins í nótt. Hún tók þó fram að framkvæmdaráð sjóðsins eigi þó eftir að staðfesta samkomulagið. 

Lán AGS til úkraínska ríkisins mun opna fyrir frekari fjármögnun frá Evrópusambandinu, Alþjóðabankanum og öðrum alþjóðlegum fjármálastofnunum. „Ég væri hissa ef fjármálaráðuneytið myndi ekki nýta sér bætta fjárhagsstöðu ríkissjóðs, á erlendum mörkuðum vegna fregnanna,“ hafði FT eftir Tim Ash, sjóðsstjóra eignarstýringarfélagsins BluBay. 

Úkraína hefur staðfest 20.148 tilfelli af Covid-19 og 588 dauðsföll af völdum veirunnar en stjórnvöld settu á útgöngubann um miðjan mars síðastliðinn. Yfirvöld tilkynntu tilslakanir á útgöngubanninu í dag í annað sinn í mánuðinum, sem gera almenningssamgöngum, hótelum, leikskólum og grunnskólum kleift að opna á ný. Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir um 4,8% samdrætti á hagvexti í ár vegna faraldursins. 

AGS krafðist hreinsun bankageirans

Tilkynningin kom nokkrum klukkutímum eftir að Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, staðfesti löggjöf sem tryggir hreinsun bankageirans. AGS hafði krafist þess að löggjöfin yrði staðfest áður en sjóðurinn myndi samþykkja lánið. 

Löggjöfin er hönnuð til að koma í veg fyrir að fyrrverandi eigendur nærri hundrað banka, sem voru teknir til gjaldþrotaskipta eða þjóðnýttir, geti endurheimt eignarhald eða fengið bætur í gegnum úkraínska dómstóla sem þykja spilltir, samkvæmt grein Financial Times um löggjöfina. 

Lagasetning er í bága við hagsmuni Igor Kolomoisky, valdamikils óligarki, sem studdi forsetaframboð Zelensku fyrir um ári síðan. Kolomoisky lögsótti ákvörðun úkraínskra stjórnvalda um þjóðnýtingu PrivatBank árið 2016 en hann var einn stærsti hluthafi bankans. 

Seðlabanki Úkraínu eignaðist bankann eftir að eftirlitsaðilar fundu 5,5 milljarða dollara gat í efnahagsreikningi bankans. Eftirlitsaðilar sögðu gatið vera tilkomið vegna svikulla lánveitinga á gríðarstórum skala en Kolomoisky hefur neitað sök.