Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti nýverið rit um efnahagshorfur að hausti fyrir heiminn í heild, en þar er m.a. að finna hagspár fyrir velflest ríki heims. Horfurnar nú eru nokkuð svartari en þær voru að vori og í sumar, en fjallað er um hagspána í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Sjóðurinn hefur fært niður hagvaxtarspár sínar til næstu tveggja ára fyrir flesta hluta heimsins um 0,2-0,3 prósentustig að meðaltali síðan í júlí, en þá hafði spáin jafnframt verið færð niður frá spánni sem gefin var út í apríl. Segir í Markaðspunktunum að mest hafa horfurnar sortnað á jaðri Evrusvæðisins, þ.e. á Ítalíu, Spáni, Kýpur, Grikklandi, Írlandi og Portúgal, þar sem hagvaxtarspáin hefur verið tekin niður um meira en eitt prósentustig síðan í vor. Á evrusvæðinu er búist við samdrætti upp á 0,4% í ár og aðeins 0,2% vexti á því næsta.

Greiningardeildin segir að þótt lítið tilefni sé til bjartsýni á heiminn í heild virðist gjaldeyrissjóðurinn þó telja að Ísland sé komið í var. Landinu er spáð fimmta mesta meðalhagvexti ríkja Evrópu í ár og á næsta ári, eða tæplega 3%. „Aðeins Tyrkland og Eystrasaltsríkin eiga meiri vöxt inni, en þar er um hálfgerð nýmarkaðsríki að ræða sem eiga að öðru jöfnu meiri vöxt vísan en þróuð ríki, auk þess sem Eystrasaltsríkin eru að stíga upp úr mun dýpri kreppu en Íslendingar og eiga því hugsanlega meiri ónýtta framleiðslugetu inni af þeim sökum,“ segir í Markaðspunktunum.