Stýrivöxtum verður ekki helst kennt um litla fjárfestingu á Íslandi undanfarið.

Þetta sagði Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á Íslandi, á símafundi með blaðamönnum fyrr í dag en í skýrslu AGS vegna endurskoðunar á efnahagsáætlun Íslands sem birt var í dag er meðal annars fjallað um áhyggjur sjóðsins af almennum hagvexti í landinu.

Flanagan sagði að í sumum tilfellum væri um hindrun í reglugerðum að ræða og í einstaka tilvikum væru pólitískar hindranir sem kæmu í veg fyrir fjárfestingu. Þá væri óvissan í efnahagskerfinu enn hindrun fyrir fjárfestingu.

Flanagan minnti á að stýrivextir hefðu lækkað verulega frá því að AGS kom að málum hér á landi.