Ekki er rétt að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hafi lagt til að haustið 2009 að láta loka ríkisreknum menningarstofnunum í sparnaðarskyni. Þjóðleikhúsið var þar sérstaklega nefnt og skyldi loka því í þrjú ár. Haft er eftir Franek Rozwadowski, sendifulltrúa sjóðsins hér á landi, í tilkynningu frá sjóðnum að þegar unnið hafi verið eftir efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda hér hafi verið lögð áhersla á að draga úr halla á fjárlögum. Ríkisstjórnin hafi haft frjálsar hendur um það hvernig það yrði gert. Það átti jafnt við um skattalegar aðgerðir sem annað sem gæti dregið úr ríkisútgjöldum. Ekki sé rétt að fulltrúar sjóðsins hafi lagt til að láta loka menningarstofnunum.

Í Fréttablaðinu í morgun var vitnað til þess að Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hafi sagt á Alþingi á föstudag í síðustu viku að þessi tillaga hafi verið lögð fram.

„Þetta var nefnt í fullri alvöru,“ hefur blaðið eftir Katrínu.