Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði ekki gert afgreiðslu Icesave-málsins að skilyrði fyrir endurskoðun sjóðsins á efnahagsáætlun AGS og Íslendinga og þar með fyrir því að önnur lánagreiðsla sjóðsins til Íslendinga verði innt af hendi.

Á hinn bóginn, hefði komið fram í máli fulltrúa AGS, að það væri betra að Icesave-málið væri leyst en óleyst.

Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn frá Illuga Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks. Illugi sagði þegar Jóhanna hafði svarað fyrirspurninni að hún þýddi á mannamáli að Icesave væri eitt af þeim skilyrðum sem AGS hefði sett fyrir endurskoðun efnahagsáætluninnar. Þegar fínir embættismenn töluðu við hvern annan þá notuðu þeir svona orðalag: að eitthvað væri „æskilegra" og „betra".

Jóhanna kom aftur í ræðustól og sagði þessa túlkun Illuga af og frá. AGS hefði ekki sett nein slík skilyrði þótt þeir hefðu sagt að það væri betra að búið væri að ganga frá Icesave áður en endurskoðunin færi fram.