Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) segir þjóðarleiðtoga á evrusvæðinu verða að bretta upp ermarnar og gera allt sem í valdi þeirra stendur til að leysa skuldakreppuna. Mælt er með því í ársskýrslu sjóðsins að stýrivextir evrópska seðlabankans verði lækkaðir, að bankinn opni fyrir aukin kaup á skuldabréfum og öðrum verðbréfum banka og fjármálafyrirtækja og slaki á kröfum sínum um veðhæfi þeirra. Þetta er að mati sjóðsins nauðsynlegt til að lækka lántökukostnað evruríkjanna.

Eins og greint var frá í morgun greiða Spánverjar hátt verð fyrir ný lán og er álagið komið yfir 7%.

Fremur dökkar horfur eru framundan í heimsbúskapnum miðað við þá hagspá sem AGS birti í vikunni. Gert er ráð að hagkerfi evrusvæðisins dragist saman um 0,3% á þessu ári en aukist um 0,7% á næsta ári. Í umfjöllun breska dagblaðsins Guardian um málið segir, að þetta kunni að vera of jákvæð spá og aðstæður í efnahagslífinu versna frekar en hitt.