*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 11. nóvember 2019 10:38

AGS segir lítil áhrif af gráa listanum

Tekist hafi að hindra slæm áhrif af ónógum aðgerðum gegn peningaþvætti. AGS spáir því að hagkerfið taki við sér á ný.

Ritstjórn
epa

Enn sem komið er hefur íslenskum stjórnvöldum tekist að koma í veg fyrir slæm áhrif af ónógum aðgerðum gegn peningaþvætti að mati Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sem gaf í morgun út skýrslu sína um stöðu íslensks efnahagslífs.

Í skýrslunni kennir margra grasa, þar er farið yfir hvernig hagkerfið hafi veikst eftir margra ára hagvöxt, en viðbrögðin, þar á meðal af hálfu ábyrgra verkalýðsfélaga hafi dregið úr slæmum áhrifum falls eins af stærstu flugfélögum landsins og skorti á vélum vegna Boeing MAX 737 vandræðanna.

Jafnframt hafi hröð viðbrögð peningastefnu stjórnvalda hjálpað til og því megi búast við að hagkerfið taki við sér, að því gefnu að ekkert slæmt gerist. Jafnframt sé töluvert svigrúm hjá stjórnvöldum til að grípa enn frekar í taumana.

Þó geti áframhaldandi vandræði með MAX vélarnar og önnur neikvæð áhrif frá alþjóðlegum áhættuþáttum, þar á meðal rof á viðskiptum vegna útgöngu Bretlands úr ESB, minnkandi alþjóðleg og evrópskur hagvöxtur, aukin verndartollastefna og minni áhersla á sættir á alþjóðlegum vettvangi yfir höfuð haft slæm áhrif.

Vilja styrkja fjármálaeftirlit

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir því nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til aðgerða til að hafa áhrif á þessa þætti, sem og styrkja fjármálaeftirlit samhliða opnun landsins inn á alþjóðlega fjármálamarkaði. Jafnframt þurfi auknar áherslur á störf sem kalli á mikla menntun og þekkingu og aukna framleiðni.

Loks segir sjóðurinn að stjórnvöld þurfi að grípa fljótt til viðbragða vegna tillagna alþjóðlegu samtakanna FATF sem sett hafa landið á gráan lista vegna ónógra varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þó hafi mikilvæg skref verið tekin í þá átt og til að auka skilvirkni kerfisins, og því hafi þrátt fyrir ákvörðun samtakanna ekki verið mikil áhrif af henni enn sem komið er, þegar kemur að greiðslum, en halda þurfi áfram að bregðast við.

Þannig hafi stjórnvöld og bankar opnað samskiptaleiðir við bæði innlenda og erlenda aðila til að fylgjast með ferlinu við að tryggja varnir gegn þessum atriðum og hindra möguleg slæm áhrif af veru landsins á listanum. Jafnframt þurfi frekari upplýsingar til almennings af mögulegum áhrifum þess fyrir fyrirtæki og heimilin í landinu.