Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur gefið frá sér lokayfirlýsingu eftir úttekt á efnahagsmálum hér á landi síðustu daga, en kynningarfundur á niðurstöðunum hófst á Kjarvalsstöðum nú kl. 10.

Í áliti sendinefndarinnar kemur fram að helsta viðfangsefnið á sviði hagstjórnar sé að styrkja fjárhagsleg tengsl við umheiminn. Árangur á þessu sviði sé forsenda fyrir hagvexti og hagkvæmari fjárfestingarkostum fyrir heimili og fyrirtæki landsins.

Þá segir jafnframt í álitinu að jákvæðar horfur í efnahagsmálum ættu að styðja við áætlun um losun fjármagnshafta. Dregið hafi úr hagvexti á árinu en innlend eftirspurn sé kröftug. Ef litið sé fram á veginn sé útlit fyrir að einkaneysla muni styrkjast vegna skuldaleiðréttingar og lægra innflutningsverðs.

Veikleikar enn fyrir hendi

Einnig kemur fram í áliti nefndarinnar að eftirmál nefndarinnar sé enn nokkur og það hafi áhrif á hagvöxt auk þess að draga úr ytri stöðugleika.

Af innlendum áhættuþáttum þurfi meðal annars að líta til óvissu vegna losunar fjármagnshafta, þrýsting á launahækkanir í komandi kjaraviðræðum, lagaleg viðfangsefni vegna skatta á fjármálafyrirtæki og framkvæmd verðtryggingar auk veikrar stöðu Íbúðalánasjóðs.

Einnig ríki óvissa um ytri skilyrði, meðal annars vegna áhættu sem tengd er minni eftirspurn í helstu viðskiptalöndum og verðhjöðnunaráhrifum.

Fagna samkomulagi við LBI

Sendinefndin kveðst fagna því átaki sem gert hafi verið til undirbúnings áætlunar um losun fjármagnshafta, og nefnir samkomulag við gamla Landsbankann (LBI) sérstaklega í því samhengi. Hún segir leiðina sem valin verður í nýrri áætlun um losun hafta muni móta Ísland til framtíðar, en til að tryggja jákvæð áhrif á hagkerfið þurfi áætlunin að leggja áherslu á stöðugleika, vera víðtæk og tengd aðstæðum, grundvallast á trúverðugri greiningu og leggja áherslu á samvinnu og hvatningu til þátttöku til að draga úr áhættu.

Segir einnig að íslensku bankarnir standi styrkir en mikilvægt sé að viðhalda hárri eigin- og lausafjárstöðu til þess að mæta losun fjármagnshafta jafnframt því að mæta aukinni áhættu. Hvetur sendinefndin Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið til þess að halda áfram að þróa álagspróf sem byggist á efnahagslegum og fjármálalegum grunni.

Eftirlit og öryggisnet forgangsatriði

Sendinefndin telur að frekari styrking öryggisnets og eftirlits með fjármálakerfinu séu forgangsatriði sem þurfi að huga að, auk þess sem taka þurfi á vanda Íbúðalánasjóðs. Mikilvægt sé að stjórnvöld vinni áfram að áætlunum um að færa innstæðutryggingar og uppgjör vegna slita á bönkum til samræmis við endurbætta alþjóðlega staðla. Stjórnvöld þurfti jafnframt að huga að því að leysa upp Íbúðalánasjóð með skipulegum hætti til að lágmarka kostnað ríkisins og kerfisáhættu.