Gjaldeyrishöftin verða áfram mikilvæg við stjórn efnahagsmála á íslandi að því er fram kemur í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um framgang efnahagsáætlunar Íslands.

Krónueignir útlendinga hér á landi eru það miklar að háir stýrivextir sporna ekki einir gegn þeirri þróun. Það mælir líka gegn því að losað verði um höftin hratt. Því verða bæði stjórnvöld og Seðlabankinn að slá á væntingar um að gjaldeyrishöftin hverfi fljótt og kynna afnám haftanna í áföngum eftir því sem ákveðin skilyrði eru uppfyllt, segir í skýrslunni.

Seðlabankinn kynnti síðastliðinn laugardag hvernig gjaldeyrishöftin verða afnumin í skrefum, fyrst með því að heimila erlenda fjárfestingu hér á landi. Hins vegar voru engar tímasetningar á næstu skrefum.

Það er í samræmi við áherslur AGS þar sem fram kemur í skýrslunni að ekki sé tímabært að tímasetja næstu áfanga í átt að meira frjálsræði í gjaldeyrismálum. Um leið og losað verði um höftin í áföngum aukist svigrúm til að fara í kringum reglurnar og því verði að efla allt eftirlit.