Kröfuhafar Nýja Kaupþings munu hirða viðbótarinnheimtu af 40 stærstu lánum bankans samkvæmt samkomulagi um uppgjör eigna sem færðar voru yfir í Nýja Kaupþing í október síðastliðnum.

Samkomulagið gerir einnig ráð fyrir því að kröfuhafarnir eignist 87 prósent hlutafjár í Nýja Kaupþingi. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Þak á hversu mikið kröfuhafarnir fá

Samkomulagið gengur út á það að viðræðuaðilar hafa náð samkomulagi um ákveðið grunnvirði eignanna sem fluttar voru yfir í Nýja Kaupþing. Það grunnvirði var nær lægri mörkum þess verðmats sem framkvæmt var á eignunum af Deloitte á sínum tíma til að búa til svigrúm fyrir auknar heimtur kröfuhafanna ef vel gengur hjá Nýja Kaupþingi.

Þetta þýðir þá að 40 stærstu lán Nýja Kaupþings eru afmörkuð (ring-fenced) og kröfuhafarnir sem aðild eiga að samkomulaginu fá allt það sem innheimtist af þeim fram yfir grunnvirði lánanna. Samkomulagið gildir til þriggja ára og þak er sett á hversu mikið kröfuhafarnir geta fengið vegna lánanna.

Skýrslan var gerð opinber klukkan 14:00 í dag. Hægt er að lesa hana í heild sinni hér .