Óstöðugleiki í íslenskum stjórnmálum varð til þess að endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á efnahagsáætlun Íslands frestaðist.

Þetta kemur fram í skýrslu AGS um endurskoðunina sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Skýrslan hefur ekki verið gerð opinber.

Breytingar á stjórn Seðlabanka og brottrekstur forstjóra FME

Í inngangi skýrslunnar er meðal annars minnst á ríkisstjórnarskiptin í janúar sem orsakavald að meintum óstöðugleika. Þá tók minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar við valdataumunum úr hendi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í kjölfar mestu mótmælaöldu sem risið hefur á Íslandi í marga áratugi.

Í skýrslunni er einnig minnst á breytingar á stjórn og skipulagi Seðlabanka Íslands, brottrekstur forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), fráhvarf lykilmanna úr stöðum í forsætisráðuneytinu og annarra ráðuneyta hafi stuðlað að óstöðugleika.

Pólitískur stöðugleiki eftir kosningar í apríl

Starfsmenn AGS taka þó sérstaklega fram að sú ríkisstjórn sem mynduð var eftir kosningarnar í apríl síðastliðnum undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur hafi gripið til margháttaðra aðgerða til að koma efnahagsáætluninni aftur í réttan farveg. Eftir kosningarnar hafi komist á pólitískur stöðugleiki og aukin áhersla á ný lögð á að leysa efnahagsvandræði Íslands.