Forðast verður hraða lækkun stýrivaxta hér á landi að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Í skýrslu til framkvæmdastjórnar AGS er brött vaxtalækkun Seðlabankans í maí á þessu ári gagnrýnd. Þar kemur fram að forðast verði hraða vaxtalækkun sem geti ógnað stöðugleikanum.

Í umfjöllun um Seðlabankann kemur fram að hann verði að halda áfram að stuðla að stöðugu gengi krónunnar. Eins og komið hefur fram er efnahagur heimila og fyrirtækja viðkvæmur fyrir gengisáhrifum auk þess sem hætta er á aukinni verðbólgu veikist krónan frekar.

Í skýrslunni kemur fram að aðhaldið sem Seðlabankinn sýndi í júlí dugi að sinni. Þegar horft sé fram á veginn, þegar traust á endurskipulagningu fjármálakerfisins eykst og meira jafnvægi kemst á ríkisfjármálin, geti skapast svigrúm til að minnka varlega aðhald vaxtastefnunnar.