*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 9. október 2018 15:17

AGS spáir 2,9% hagvexti á næsta ári

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur birt nýja hagvaxtarspá fyrir Ísland. Sjóðurinn spáir 2,9% hagvexti á næsta ári.

Ritstjórn
Christine Lagarde, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
epa

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur birt hagvaxtarspá sína fyrir Ísland. Meðal þess sem þar kemur fram er að sjóðurinn spáir 3,7% hagvexti í ár, 2,9% hagvexti á því næsta og 2,8% hagvexti árið 2020.

Í verðbólguspá sjóðsins fyrir Ísland spáir 2,53% verðbólgu í ár og 2,6% verðbólgu á næstu tveimur árum. Spáð er að atvinnuleysi hérlendis á þessu ári muni nema 2,8% á þessu ári, 3,2% á því næsta og verði um 3,3% árið 2020.

Hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er meðal annars nýtt af lánshæfismatsfyrirtækjunum S&P, Fitch og Moody´s. 

Innlendir greinendur spá hægari vexti í ár

Greiningardeild Arion banka uppfærði hagvaxtarspá sína í ágúst síðastliðnum og gerir nú ráð fyrir 3% hagvexti í ár og á því næsta, þá gerir bankinn ráð fyrir því að hún lækki niður í 2,4% árið 2020. Verðbólguspá bankans gerir ráð fyrir 2,7% verðbólgu í ár, 3,5% verðbólgu á því næsta og 3,7% verðbólgu á því þar næsta.

Í Þjóðhagsspá Íslandsbanka kemur fram að greinendur bankans spái því að hagvöxtur í ár verði 3,4% í ár og 1,5% á næsta ári. Hægari vöxtur er sagður skrifast á mikinn samdrátt í atvinnufjárfestingu, hóflegan einkaneysluvöxt sem og lítinn vöxt þjónustu útflutnings. Greinendur bankans gera ráð fyrir því að verðbólgan á næsta ári verði 3,5% og 3,0% árið 2020.

Hagvaxtarspáin fyrir heiminn lækkuð

Í hagvaxtarspá sjóðsins sem birt var í morgun kom fram að hagvaxtarspá fyrir heiminn hafi verið lækkuð úr 3,9% frá því í apríl í 3,7%. Ástæður fyrir lækkuninni eru sagðar vera aukinn óstöðugleiki í nýmarkaðsríkjum og viðskiptahindranir. 

Framkvæmdastjóri AGS, Christine Lagarde lét hafa eftir sér í viðtali við Wall Street Journal að alþjóðlegir efnahagslegir vindar séu að breytast.