Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) uppfærði spá sína um heimshagvöxt fyrir árið 2014 í vikunni, um 0,1%, og spáir nú 3,7% hagvexti í heiminum á árinu. Hagvaxtarhorfur vestanhafs hafa batnað en AGS spáir nú 2,8% vexti í Bandaríkjunum, sem er 0,2 prósentustigum meira en stofnunin spáði í október síðastliðnum. Í fyrra mældist vöxturinn 1,9%. AGS telur að þung skuldabyrði evruríkjanna muni halda aftur af innlendri eftirspurn á svæðinu á næstu mánuðum, þó útflutningur styðji við vöxtinn, en stofnunin spáir 1% vexti á árinu.

Nýjustu tölur benda til þess að hagvöxtur hafi verið 0,4% á evrusvæðinu í fyrra, eftir samdrátt árið áður. Búist er við talsvert meiri hagvexti á Bretlandseyjum á næstu misserum, í ljósi aukins aðgangs að lánsfjármagni og trausts í garð fjármálamarkaða þarlendis. AGS spáir því að breska hagkerfið vaxi um 2,25% árin 2014 og 2015.