Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn býst nú við að 0,5% samdráttur verði á evrusvæðinu þetta árið, en í september bjuggust þeir við 1,6% vexti. Er sagt frá þessu í Morgunkorni Íslandsbanka í dag. Mestu munar um að nú er búist við að hagkerfi Spánar dragist saman um 1,7% á þessu ári en áður bjuggust þeir við hagvexti þar syðra og þá spáir AGS að samdráttur verði á Ítalíu um 2,2%. Enn fremur er búist við afar litlum vexti í Þýskalandi og Frakklandi.

Þar sem um uppfærslu er að ræða en ekki nýja skýrslu gefur AGS ekki út sérstaka spá fyrir íslenska hagkerfið að þessu sinni en í september sl. spáði AGS að íslenska hagkerfið myndi vaxa um 2,5% á þessu ári. Horfurnar fyrir íslenska hagkerfið eru því mjög góðar í alþjóðlegum samanburði um þessar mundir að mati greiningardeildar Íslandsbanka.

AGS hefur ekki breytt um skoðun fyrir Bandaríkin, en þar er líkt og í septemberskýrslunni spáð að hagvöxtur verði 1,8% á þessu ári. AGS spáir að nýmarkaðs- og þróunarlönd vaxi um tæplega 6% í ár, sem er hálfu prósenti minna en þeir spáðu í september.