Framleiðsla á heimsvísu dregst saman um 4,9% á heimsvísu í ár samkvæmt nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Það er um 1,9% meiri samdráttur en hann spáði í apríl. Á hinn bóginn reiknar sjóðurinn með að hagvöxtur næsta árs verði 5,4%. Miðað við þessar spár verður samanlagt tap heimshagkerfisins á tímabilinu 2020-21 yfir 12 billjónir dollara.

Lækkunin á hagvaxtarspánni má rekja til væntinga um meiri samdrátt á fyrri helmingi ársins. Sjóðurinn telur að áhrif félagsforðunar (e. social distancing) á seinni helmingi ársins verði meiri en búist var við, auk þess sem framleiðslugeta hagkerfisins verði minni.

AGS spáir að þróuð hagkerfi muni dragast saman um 8% á árinu en vaxa um 4,8% á næsta ári. Evrusvæðið kemur enn verra út en sjóðurinn spáir að hagkerfi þess muni dragast saman um 10,2%. Þar af mun hagkerfi Frakklands, Ítalíu og Spánar dragast saman um meira en 12%. Breska hagkerfinu er spáð 8% samdrætti og því bandaríska 10,2%.

Spáð er minni samdrætti í þróunarlöndum og nýmörkuðum eða um 3% á árinu. Reiknað er með að hagvöxtur í Kína, sem flokkast enn sem þróunarland, verði 1% í ár og 8,2 % árið 2021. AGS spáir að indverska hagkerfið dragist saman um 4,5% í ár.

Í greiningu AGS segir að mikil óvissa ríki um spána, bæði um mögulegan bata eða frekari afturkipp. Betri fréttir af bóluefni og aðhlynningu gætu leitt til sneggri efnahagsbata. Nýjar öldur af smitum gætu hins vegar haft neikvæð áhrif á hagkerfið.

AGS hrósar stuðningsaðgerðum stjórnvalda, sérstaklega í þróuðum ríkjum, og segir að þær hafi verið einstakar. Heildarfjárhæð aðgerðanna nemur samtals 10 billjónum dollurum. Til viðbótar hafa seðlabankar beitt stýritækjum peningastefna með kröftugum stýrivaxtalækkunum, innspýtingu lausafjár og eignakaupum.