Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur lækkað hagvaxtarhorfur í Asíu. Sjóðurinn gerir ráð fyrir því í nýrri spá sinni að hagvöxtur verði 6,3 prósent í Asíu á þessu ári og 6,7 prósent á næsta ári. Í hagspá AGS sem gefin var út í apríl var gert ráð fyrir 7,0 prósenta hagvexti í Asíu bæði árin og myndi hann halda uppi meðalhagvexti á heimsvísu.

Helsta ástæðan fyrir þessari neikvæðu endurskoðun AGS er skuldavandinn á evrusvæðinu og áhyggjur af efnahagshorfum í Bandaríkjunum. Það getur skilað sér í minni útflutningi frá Asíu en áður var gert ráð fyrir.

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur upp úr hagspá AGS í dag að ráðamenn í Asíu verði að fara varlega; þeir verði að leita leiða til að tryggja hagvöxt á sama tíma og nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að verðbólga rjúki upp.