Hagvöxtur á heimsvísu verður 3,3% árið 2015 samkvæmt nýjustu spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Er þetta nokkuð minni hagvöxtur en síðasta spá gerði ráð fyrir en þá spáði sjóðurinn 3,5% hagvexti.

Helsta ástæðan fyrir lægri hagvexti en áður var gert ráð fyrir er minni vöxtur í Bandaríkjunum. Nú gerir AGS ráð fyrir 2,5% hagvexti í Bandaríkjunum árið 2015 en gerði áður ráð fyrir 3,1% hagvexti á árinu.

Spáin óbreytt í Evrópu og Kína

Skuldakreppan í Grikklandi hefur að mati AGS lítil áhrif á hagvöxt heimsins en spá hans fyrir hagvöxt á Evrusvæðinu er óbreytt frá fyrri spá í 1,5%. Þá breytist spá þeirra um hagvöxt í Þýskalandi (1,6%) og Frakklandi (1,2%) ekki frá fyrri spá.

Athygli vekur að spá AGS um hagvöxt í Kína er einnig óbreytt í 6,8% þrátt fyrir miklar sveiflur á kínverskum hlutabréfamarkaði undanfarna daga. Í frétt BBC um málið er haft eftir Oliver Blanchard, aðalhagfræðingi AGS, að „bólan þar sé sprungin“ og að sveiflurnar hefðu lítil áhrif á hagvöxt í Kína.

Hér er hægt að sjá spá AGS í heild sinni.