Efnahagslífið hér á landi er á réttri leið, eftirspurn að aukast og að draga úr atvinnuleysi. Á sama tíma gæti samdrátttur og óvissa í hagkerfum viðskiptalanda Íslands leitt til neikvæðra áhrifa hér, s.s. hækkað lántökukostnað og útflutningur orðið minni en ella.

Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli Peter Dohlman,  yfirmanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Hann fór yfir nýja yfirlýsingu sendinefndarinnar á Kjarvalsstöðum í morgun.

Í yfirlýsingu nefndarinnar segir m.a. að ýmis jákvæð merki megi greina hér á landi, s.s. jákvæð áhrif skuldaleiðréttingarinnar á heimilin í landinu. Á sama tíma þurfi lítið svo út af bregði. T.d. verði að vanda vel til verka við afnám gjaldeyrishafta. Þau, að sögn Dohlman, hvíli þungt á íslensku efnahagslífi og því sé nauðsynlegt að afnema þau.