Grískir kjósendur hafa fengið góða ástæðu til að hafna samningum stjórnvalda við lánadrottna í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn , einn af þremur stærstu lánveitendum Grikklands, hefur nefnilega viðurkennt að endurskoða þurfi skuldir landsins.

Grikkir hafa allan tímann barist fyrir því að skuldum ríkisins verði breytt þannig að auðveldara verði að standa straum af greiðslum. Sagði fjármálaráðherrann Yanis Varoufakis við Bloomberg í dag að hann myndi frekar „skera af sér höndina“ en að skrifa undir neyðarsamning sem fæli ekki í sér breytingar á skuldaskilmálum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn viðurkenndi í skýrslu um skuldastöðu Grikklands í dag að skuldir þeirra væru svo ósjálfbærar að ríkið muni engan veginn ráða við greiðslur í allavega þrjú ár, jafnvel þó hlutirnir fari að breytast í rétta átt. Grikkir eiga næst að borga 3,5 milljarða evra til Seðlabanka Evrópu þann 20. júlí, en um mánaðamótin gjaldféll 1,8 milljarða evra greiðsla til AGS.

Þá segir AGS jafnframt að líklega þurfi að afskrifa einhvern hluta af skuldum Grikklands. Sjóðurinn stingur meira að segja upp á því að gefa Grikkjum 20 ára gálgafrest þar sem þeir þyrftu ekki að borga neinar skuldir. Þannig geti þeir mögulega komist á réttan kjöl.

Grískur efnahagur er í virkilega slæmri stöðu vegna mikilla skulda ríkisins og hefur samdráttur verið mikill undanfarin ár. Segir AGS að Grikkir þurfi 50 milljarða evra til að lifa næstu þrjú ár af.

Þessi ummæli frá AGS eru mikil lyftistöng fyrir forsætisráðherrann Tsipras og stjórnarflokk hans, en þó er ljóst að sjóðurinn þarf einnig að sannfæra hina lánadrottnana tvo um að Grikkir eigi skilið rými til að anda.