Franek Rozwadowski, sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, sagði aðspurður á fundi í morgun að framtíðarskipulag á gjaldmiðlamálum Íslendinga væri undir stjórnvöldum komið. Það væri ekki hlutverk AGS að segja til um hvort Íslendingar ættu að taka upp evru eða annað fyrirkomulag á gjaldmiðlamálum en nú er.

Franek heimsótti starfsfólk MP banka til að fara yfir málefni sem tengjast Íslandi og AGS, en hann sækir slíka fundi reglulega. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins var gengið á hann um framtíðarskipan gengismála í ljósi þess að hér væru gjaldeyrishöft og óvissa um hvort hægt yrði að láta krónuna fljóta án hafta.

Myntsamstarf við Noreg

Franek svaraði því til að vissulega væri auðveldara að ráða fram úr vandanum ef hér væri rekin  fastgengisstefna, myntráð tekið upp eða myntsamstarf. Nefndi hann sérstaklega norsku krónuna í því sambandi auk evrunnar. Hins vegar lagði hann áherslu á, eins og AGS hefur gert í samtölum við blaðamenn, að það væri á valdsviði íslenskra stjórnvalda að ákvarða hvað yrði gert.

Frá árinu 2001 þangað til bankarnir hrundu fyrir tveimur árum var rekin hér svokölluð flotgengisstefna. Þá var verðmæti krónunnar mælt í öðrum gjaldmiðli í viðskiptum á markaði og réðist gengi krónunnar af þeim. Myntráð felur í sér að gjaldmiðill ríkis er skiptanlegur í annan gjaldmiðil á ákveðnu föstu gengi, sem myntráðið ákvarðar. Myntsamstarf getur falið í sér að Íslendingar taki upp t.d. norska krónu sem gjaldmiðil hér á landi, sem notuð yrði í viðskiptum. Allar þessar leiðir fela í sér að Íslendingar afsali að einhverju leyti sjálfstæðri peningamálastefnu.