Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) er nokkuð svartsýnni en áður á horfur í heimshagkerfinu. Í nýjustu spá sjóðsins er gert ráð fyrir því að meðalhagvöxtur á heimsvísu verði 3,1% á þessu ári og 3,8% á næsta ári. Þetta er 0,2 prósentustiga lækkun bæði árin frá fyrri spá sjóðsins. Hægari vöxtur en áður á nýmörkuðum og áhrif skuldakreppunnar á evrusvæðinu hafa mest um það að segja að hagspáin var færð niður, samkvæmt umfjöllun breska dagblaðsins Financial Times um málið.

Blaðið telur til að mestu muni um hægari hagvöxt í Kína og Brasilíu auk þess sem búist er við því að ítalska hagkerfið dragist saman um 1,8%á árinu. Í spánni kemur m.a. fram að reiknað er með því að hagkerfi evruríkjanna dragist saman um 0,6% á þessu ári en að 7,7% hagvöxtur verði í Kína og 3,3% í Rússlandi. Þá er ekki búist við því að tíðin batni mikið á Spáni.