Til að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin þarf að leysa aflandskrónuvandann en til þess þarf meðal annars að auka hvata aflandskrónueigenda til að nýta þær leiðir sem í boði eru til að losa um fjármunina. Slíkar leiðir eru til dæmis gjaldeyrisútboð Seðlabankans.

Þetta segir í stöðuskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland sem birt var í gær. Þar kemur fram að gjaldeyrishöftin þurfi að halda út árið 2015 hið minnsta. Í skýrslunni er þó lýst almennri ánægju með þann árangur sem náðst hefur á sviði efnahagsmála hér á landi á síðustu árum.

Í skýrslunni er bent á ýmsa áhættuþætti og vegur kreppan á evrusvæðinu þar þungt. Þá er fjallað um fjárlög fyrir næsta ár sem sjóðurinn telur hætt við að verði fyrir áhrifum af þingkosningum á næsta ári. Auk þess bendir sjóðurinn á að vanda sem geti fylgt áframhaldandi hárri verðbólgu. Að lokum segir um áhættuþætti í skýrslunni að fjárfestingar í orkufrekum iðnaði hafi tafist, vegna fjármögnunar, tæknilegra mála og pólitískrar andstöðu. Það dragi úr vexti og geti haft neikvæð áhrif.