Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er tilbúinn að rétta Grikkjum hjálparhönd við að leysa úr sínum mikla skuldavanda í kjölfar þess að gríska þjóðin hafnaði skilyrðum lánadrottna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Grikkland gjaldféll á 1,6 milljarða evra skuld sinni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um mánaðamótin og í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar er ljóst að setjast þarf að samningaborðinu á ný.

Brotthvarf fjármálaráðherrans Yanis Varoufakis virðist ætla að hafa jákvæð áhrif á viðræður, en hann var afar óvinsæll meðal evrópskra kollega sinna. Nú hefur formaður AGS, Christine Lagarde, einnig komið með jákvæðan tón í umræðuna.

„AGS gerir sér grein fyrir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Grikklandi. Við fylgjumst náið með ástandinu og erum reiðubúin að aðstoða Grikki ef um það er beðið,“ sagði Lagarde í yfirlýsingu.

Grikkir hafa sjálfir lofað því að koma með nýjar hugmyndir á samningafundi á morgun.