Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) vegna fimmtu endurskoðunar á efnahagsáætlun AGS og Íslands kemur fram að þrýstingur geti skapast á fjármögnun ríkisins og bankanna með afnámi hafta vegna aflandskrónueigna.

Umfjöllun AGS er að mestu byggð á áætlun Seðlabanka Íslands um afnám gjaldeyrishafta sem birt hefur verið á vef Seðlabanka Íslands og fjallað hefur verið um ítarlega í Viðskiptablaðinu.

Seðlabankinn hefur þegar stigið fyrstu skrefin til að afnema höft, sem felast í uppboðum á aflandskrónueignum. Í skýrslu AGS, líkt og í áætlun Seðlabanka Íslands, kemur fram að meðal annars sé horft til þess að lífeyrissjóðirnir, sem eiga eignir erlendis fyrir um 500 milljarða króna, muni geta keypt aflandskrónueignir og með því létt þrýstingi á gengi krónunnar. Um leið gefst þeim tækifæri á því að fá krónueignir á hagstæðum kjörum.

Krónan
Krónan
© vb.is (vb.is)

Aflandskrónueignir eru nú á milli 400 og 500 milljarðar króna, að því er fram kemur í skýrslu AGS.

Í skýrslu AGS kemur fram að skref í átt að afnámi haft séu háð ytri aðstæðum. Nákvæmlega tímasett áætlun sé ekki það sem að er stefnt heldur miklu fremur að höftin verði afnumin þegar aðstæður leyfi.