Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hyggur á stofnun lánasjóðs sem ætlaður er til þess að veita ríkjum í efnahagsvanda skammtímalán til þess að leysa bráðasta vandann. Sjóðurinn gæti t.d. gagnast löndum á borð við Spán og Ítalíu sem nú eiga erfitt með að afla sér fjár á viðráðanlegum kjörum.

Japanska dagblaðið Yumiuri Shimbun greindi frá þessu í morgun og vísaði til ónafngreindra heimilda en erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um þetta í dag. Hugmyndin verður tekin til umfjöllunar á fundi G20-ríkjanna í Cannes um næstu helgi og að því loknu mun stjórn IMF fjalla um það. Samkvæmt frétt japanaska blaðsins munu lánin sem sjóðurinn getur veitt að hámarki nema 500-földu ársframlagi hvers aðildarríkis til AGS og hægt verður að veita lánið umsvifalaust þegar umsókn hefur borist.