Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) vantar 150 milljarða bandaríkjadala til að aðstoða nýmarkaðsríki að eiga við breyttar efnahagsaðstæður í kjölfar lausafjárkreppunnar. Þetta kemur fram í umfjöllun Greiningar Glitnis.

Þar segir einnig:

„Dominique Strauss-Kahn framkvæmdarstjóri IMF sagði í nýlegu viðtali að ástandið í kjölfar kreppunnar hefði versnað til muna undanfarið hálft ár og að útlit væri fyrir að fleiri aðildarríki þyrftu á aðstoð sjóðsins að halda en áður var talið. Strauss-Kahn sagði jafnframt að útlit væri fyrir að þegar stormurinn yrði að baki myndu afskriftir vegna kreppunnar nema allt að 1,4 trilljónum bandaríkjadala. Strauss-Kahn sagðist í sama viðtali vera sannfærður um að það myndi ganga vel að finna það fé sem vantar og að sérstaklega væri horft til landa á borð við Kína og Saudi Arabíu í því sambandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur eins og kunnugt er verið duglegur að lána fé til aðildarríkja í vanda og þeim ríkjum fjölgar stöðugt sem banka á dyr sjóðsins.“

Þá segir að auk 2,1 milljarða dala láns til Íslands hafi sjóðurinn afgreitt neyðarlán til sex annarra aðildarríkja vegna efnahagsvandræða sem rekja má til lausafjárkreppunnar. Upphæðin vegna þessa nemi nú tæplega 45 milljörðum dala.

Sjá nánar hér.