Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur varað við því að alþjóðlegt hrun gæti verið framundan á fasteignamarkaði ef ekki verður brugðist við háu húsnæðisverði. Sagt er frá þessu á vef Financial Times.

Samkvæmt nýjum tölum virðist fasteignaverð hafa farið hækkandi á síðustu misserum og er nú talsvert yfir sögulegu meðaltali í mörgum löndum. AGS telur fasteignaverðið eina mestu ógn við efnahagslegan stöðugleika í dag og nauðsynlegt sé því að ríki bregðist við. Samkvæmt nýjustu tölum hefur fasteignaverð á heimsvísu hækkað um 3,1% á síðasta ári. Mest hefur það hækkað í Filippseyjum eða um 10%. Þá hefur hækkunin numið 9% í Kína og 7% í Brasilíu.

AGS bendir á að til að bregðast við samdrætti í hagkerfinu hafi seðlabankar víða um heim lækkað vexti. Það hafi hins vegar leitt til þess að fasteignaverð hafi náð sögulegum hæðum.