Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) ætlar að veita Kýpverjum eins milljarða evra neyðarlán til að koma í veg fyrir gjaldþrot landsins. Christine Lagarde, framkvæmdastjóri sjóðsins, segir stjórn hans eiga eftir að samþykkja lánveitinguna. Hún gerir ráð fyrir því að heimild fyrir því fáist snemma í næsta mánuði.

Reuters-fréttastofan segir að AGS hafi sent frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kemur að sendinefnd á vegum sjóðsins hafi fundað um efnahagsáætlun fyrir Kýpur með ráðamönnum þar. Að efnahagsáætluninni koma auk AGS bæði Evrópusambandið (ESB) og evrópski seðlabankinn. Samtals nema lánveitingar til Kýpur 10 milljörðum evra, jafnvirði tæpra 1.600 milljarða íslenskra króna.

Fram kemur í tilkynningu AGS að lánið á að gera stjórnvöldum kleift að standa við skuldbindingar Kýpur og auka trúverðugleika fjárfesta á landinu.