Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) tilkynnti í dag að veittir yrðu alls 17,5 milljarðar dollara yfir fjögurra ára tímabil til að tryggja að ríkissjóður Úkraínu geti staðið við skuldbindingar sínar.

Áætlunin AGS kemur í stað fyrri áætlunar upp á 17 milljarða dollara sem hófst fyrir ári síðan en hætt var við hana eftir að deilur Úkraínumanna við Rússa mögnuðust. AGS hafði þegar útdeilt 4,5 milljörðum dollara samkvæmt fyrri áætlun sem þýðir að heildarútgjöld sjóðsins til Úkraínumanna munu nema 22 milljörðum bandaríkjadollara þegar áætluninni lýkur.

Vopnahlé mun hefjast í Austur-Úkraínu á sunnudaginn eftir að samkomulag náðist á milli leiðtoga Rússa, Frakka, Þjóðverja um vegvísi að friðarferli í Evrópu. Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagði áætlunina raunhæfa en að hún væri alls ekki án allrar áhættu. „Yfirvöld í Úkraínu eru að sýna hugrekki til umbóta sem við höfum ekki séð áður,“ sagði hún.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times .