Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segist hafa gert mistök við afgreiðslu fyrsta björgunarpakka Grikkja. Sjóðurinn segist hafa verið of bjartsýnn um vaxtarspá og telur jafnframt að endurskipulagnin skulda hefði átt að koma fyrr fram. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Vísað er í skýrslu AGS um björgunina þar sem segir að sjóðurinn hafi „beygt“ eigin reglur til að flýta fyrir afgreiðslu björgunarpakkans enda var óttast að Grikkir færu hratt í þrot og hefðu áhrif á önnur lönd á svæðinu. Því var litið hjá einni af fjórum reglum um veitingu lána frá AGS sem felur í sér að hið opinbera geti greitt af skuldum sínum til lengri tíma litið.

Grikkland fékk 110 milljarða evra björgunarpakka frá AGS og ESB í maí árið 2010. Annar björgunarpakki að andvirði um 130 milljarða evra var veittur landinu í febrúar árið 2012.