Í yfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að skipulögð losun gjaldeyrishafta krefjist flókinna og heildstæðra aðgerða. Í því samhengi er fyrst nefnt að uppgjör þrotabúa gömlu bankanna, þar með talið endurgreiðslu á milli gamla og nýja Landsbankans, megi ekki ógna fjármálastöðugleika í landinu.

Í öðru lagi kemur fram að sterkari hvata þurfi fyrir eigendur aflandskróna til að losa um krónur sínar. Þetta má gera með birtingu áætlunar þar sem kemur fram við hverju aflandskrónureigendur mega búast ef þeir eru ekki þegar búnir að taka þátt í aðgerðum stjórnvalda. Aðgerðir stjórnvalda eiga þá að sjá til þess að aflandskrónueigendur verði neyddir út að lokum.

Í þriðja lagi er nefnt að mögulegir fjármagnsflutningar íbúa hérlendis frá landinu í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta megi stjórna með sérstökum hraðatakmörkunum útflæðis fjármagns eða að ákveðnar eignir verði losaðar frá höftum á undan öðrum. Styðja þurfi við þessar aðgerðir með skýrum reglum og eftirliti.