Dóha-viðræðurnar um aukið frelsi í heimsviðskiptum eru hafnar á ný á grundvelli samkomulags sem tókst í lok júlí um ramma fyrir áframhaldandi samningaumleitanir. Haldnir hafa verið samningafundir um landbúnað og
viðskiptareglur og í fyrradag stjórnaði Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Genf, fundi samninganefndar WTO um markaðsaðgang fyrir iðnaðarvörur (NAMA).

"Þetta var góður fundur - betri en menn höfðu þorað að vona", sagði Stefán Haukur í samtali við Stiklur, vefrit utanríkisráðuneytisins. Samstaða um að tryggja hagsmuni þróunarríkja ?Við fórum vel af stað en það er mikil vinna framundan við að greina mismunandi hagsmuni og máta mögulegar lausnir. Meginverkefnið er að auka verulega frelsi í heimsviðskiptum og á sama tíma að tryggja sérstaklega hagsmuni þróunarríkja," segir Stefán Haukur í viðtalinu.

Aðildarríki WTO eru 147 talsins. Öll aðildarríkin eiga mikið undir niðurstöðu Dóha-viðræðnanna og þar sem aðstæður þeirra eru mjög mismunandi hafa þau ólík viðhorf og markmið. "Helsta verkefni framundan er að greina mismunandi kröfur og aðstæður aðildarríkjanna. Síðan þurfum við að finna jafnvægi milli þeirra markmiða, sem mismunandi ríki og ríkjahópar hafa, og þess svigrúms sem er til að koma til ná þeim markmiðum," sagði Stefán Haukur.

"Niðurstaða Dóha-viðræðnanna getur haft veruleg áhrif í þá átt tryggja aðstæður fyrir áframhaldandi hagsæld og aukningu í heimsviðskiptum. Til þess að ná árangri þá þurfa ríkin að vera tilbúin til að skoða nýjar hugmyndir og lausnir." Stefán Haukur segir ennfremur að einlægur vilji hafi
komið fram á fundinum til að vinna áfram á grundvelli rammasamkomulags frá því í júlí. Á fundi um viðskiptareglur sem haldinn var í síðustu viku var meðal annars fjallað um ríkisstyrki í sjávarútvegi, en Ísland hefur barist gegn slíkum styrkjum þar sem þeir ýta undir ofveiði og offjárfestingu, skekkja samkeppnisstöðu og stuðla að óskynsamlegri nýtingu auðlindarinnar.

Rammasamkomulagið frá júlí

Rammasamkomulagið um áframhald Dóhaviðræðnanna, sem náðist í júlí, gerir m.a. ráð fyrir að hæstu tollar á vörur, aðrar en landbúnaðarvörur,
lækki meira en lægri tollar. Samið verður sérstaklega um afnám tolla á vörur, sem eru þróunarríkjunum mikilvægar, en ekki hefur verið ákveðið um hvaða vöruflokka verður að ræða. Ennfremur er gert ráð fyrir að þróunarríki hafi meiri sveigjanleika en iðnríki til að viðhalda tollum.

Hvað varðar landbúnað er gert ráð fyrir að heimildir aðildarríkja til að styrkja landbúnað eftir leiðum, sem teljast framleiðslutengdar og markaðstruflandi, verði lækkaðar um 20% strax við gildistöku hugsanlegs samnings. Enn á eftir að semja um hversu mikil lækkunin verður á heildina litið.

Samkomulag náðist um afnám útflutningsstyrkja fyrir ákveðin tímamörk sem samið verður um síðar. Gert er ráð fyrir að heimildir til að leggja á hæstu tolla í landbúnaði lækki meira en heimildir til að leggja á lægri tolla. Ákveðið svigrúm verður fyrir aðildarríki til að lækka tolla á svokallaðar
"viðkvæmar vörur" minna en tolla á aðrar vörur á sama tíma og gengið er út frá því að tollkvótar verði rýmkaðir í því skyni að auka markaðsaðgang fyrir búvörur í heimsviðskiptum.