„Það verður sáralítill innflutningur á stærri hýsum eins og hjólhýsum og húsbýlum. Það er nánast sjálfdautt. Það verður einhver örlítill innflutningur í ódýrstu týpunum og eins í tjaldvögnum og fellihýsum miðað við það sem verið hefur," segir Björgvin Barðdal framkvæmdastjóri Seglagerðarinnar Ægir.

Björgvin segir að um 14.900 ferðavagnar séu nú skráðir á Íslandi. Mikið hefur verið flutt inn af slíkum vögnum undanfarin ár. Hann segir að salan á notuðum vögnin sé ágæt og greinilegt að fólk velti þeim kosti fyrir sér, að kaupa notaðan vagn eða fá lánað hjá vinum og ættingjum í stað þess að fara til útlanda. Því leggi Seglagerðin áherslu á að þjónusta þennan hóp um leið og salan á nýjum vögnum minnkar.

„Það er miklu meira að gera í því núna en undanfarna vetur. Fólk er að spá meira í því fyrir sumarið. Það ætlar ekki til útlanda og er kannski enn í áfalli eftir síðustu utanlandsferð. Það reynir að leigja eða fá lánað hjá vinum og ættingjum. Svona vagnar þurfa viðhald og svo bæta menn einhverju við eins og fortjaldi eða skyggni. Við horfum nú meira á þjónustuþáttinn. Það hefur líka fækkað þeim fyrirtækjum sem eru að selja nýja vagna. Það voru mjög margir í þessu þegar hæst bar. Nú eru það fyrirtækin sem hafa meira en áratuga reynslu sem eru áfram starfandi," segir Björgvin.

Þau fyrirtæki aðlagi sig að breyttum aðstæðum og einbeiti sér að nýjum þjónustuþáttum. Hann reiknar með að salan á tjaldvögnum verði einhver þrátt fyrir hækkun milli ára vegna gengisþróunar.