Árið fer ágætlega af stað á skuldabréfamarkaði hvað veltu varðar, að mati greiningardeildar Glitnis. ?Dagleg meðalvelta í janúar var 8,3 milljarðar króna samanborið við 6,3 milljarðar á sama tíma í fyrra. Athyglisvert er að sjá að megnið af aukningu veltu á milli ára í janúarmánuði kemur af auknum viðskiptum með óverðtryggð bréf.

Veltan í janúar á síðasta ári skiptist þannig að rúmlega 80% hennar var í íbúðabréfum á móti 20% í ríkisbréfum. Skiptingin á þessu ári er þannig að 59% veltunnar kemur frá íbúðabréfum og 41% í ríkisbréfum. Velta á skuldabréfamarkaði jókst mjög mikið á síðasta ári eða nánast tvöfaldaðist á milli ára. Er veltan í janúar á þessu ári aðeins yfir daglegri veltu á síðasta ári en hún var 8,7 milljarða króna að meðaltali,? segir greiningardeildin.

Hún segir þróun ávöxtunarkröfu íbúðabréfa í janúar var á þá leið að hún hækkaði töluvert á öllum flokkum, hvort sem um er að ræða verðtryggð eða óverðtryggð bréf. Þannig hefur krafan á íbúðabréfum hækkað um 27-41 punkt en taka verður mið af því að hún lækkaði mjög snarpt rétt fyrir áramótin.

?Er ávöxtunarkrafa íbúðabréfa nú nokkuð hærri en við settum fram í spá okkar fyrir janúarmánuð. Líkt og með íbúðabréfin hækkaði krafa styttri flokka ríkisbréfa nokkuð í janúar eða um 43-50 punkta. Á sama tíma lækkaði krafa lengri flokkanna um 55-56 punkta. Er krafa styttri flokkanna aðeins yfir spá okkar en krafa lengri flokkanna töluvert undir því sem við gerðum ráð fyrir í lok janúar. Stefnt er að því að birta uppfærða spá fyrir markflokka skuldabréfa í næstu viku,? segir greiningardeildin.