Að sögn Ólafs Torfasonar hóteleiganda lítur ágætlega út með bókanir vegna ráðstefnuhalds í september og október. Sömuleiðis er búið að bóka talsvert vegna nóvember en menn renna hins vegar blint í sjóinn með næsta ár. Ólafur rekur meðal annars Grand Hótel og Fosshótelin.

,,Hveð verður veit enginn. Sumir tala um að kreppan verði lungan úr næsta ári líka,“ sagði Ólafur. Það kom fram hjá honum að veik staða krónunnar kæmi ferðaþjónustunni ekki endilega þann ávinning sem ætla mætti þar sem erlendir viðskiptavinir krefðust afsláttar.

Að sögn Ólafs hefur margt verið ferðaþjónustunni andstætt og erfitt að gera áætlanir. Þannig hafi júlímánuður litið skelfilega út varðandi bókanir í aprílmánuði síðastliðnum. ,,Hann hefur lagast töluvert en verður ferlega lélegur samt. Það er erfitt hjá borgarhótelunum en landsbyggðin er betri en oft áður.“