Barclays bankinn í Bretlandi, þriðji stærsti banki landsins, birti uppgjör sitt í dag og stóð það vel undir væntingum markaðsaðila þrátt fyrir afskriftir m.a. vegna undirmálslána að andvirði 1,6 milljarða punda yfir árið allt. Í Hálf fimm fréttum Kaupþings segir að það séu nokkuð minni afskriftir en reiknað hafði verið með. Hagnaður bankans fyrir skatta var 7,1 milljarður punda sem er litlu fyrir ofan væntingar markaðsaðila (7,0 milljarður punda) og nánast sá sami og árið 2006.

Vísbending um framhaldið

Markaðurinn tók uppgjörinu nokkuð vel og höfðu bréf bankans hækkað um 3,5% í viðskiptum dagsins. Barclays hækkaði einnig skarpt í gær vegna væntinga spákaupamanna um að bankinn myndi auka arðgreiðslur og kom það sannarlega á daginn. Stefnt er að því að auka arðgreiðslur um 10% á milli ára, úr 31 pensi upp í 34 pens. Barclays er fyrsti stóri bankinn í Bretlandi sem birtir uppgjör sitt og er það talið vísbending um hvernig uppgjör banka á borð við HSBC, Royal Bank of Scotland og Lloyds muni líta út. Hækkuðu þau félög einnig í dag frá 2,0 - 4,5%, samkvæmt því sem segirí Hálffimm fréttum Kaupþings.