Rekstur Bakkavarar verður kominn aftur á beinu brautina á fjórða fjórðungi þessa árs, sagði Ágúst Guðmundsson forstjóri fyrirtækisins á kynningarfundi vegna uppgjörs fyrsta fjórðungs í morgun.

Hann sagði að niðurstaðan væri vonbrigði, en sala félagsins á tilbúnum réttum í Bretlandi minnkaði um 2,3%, miðað við vöxt markaðarins um 5,1% og afurðasala dróst saman um 5,7%, miðað við vöxt markaðarins um 5,6%. Tap hluthafa á fjórðungnum nam 13 milljónum punda.

Ágúst sagði að þessi erfiði fjórðungur hefði ekki breytt stefnu fyrirtækisins, en í gær var tilkynnt að Bakkavör hefði gert skiptasamning um 10,9% hluti í írska matvælafyrirtækinu Greencore, auk þess að fyrirtækið hefði tekið yfir ítalska félagið Italpizza og keypt 45% í bakkelsisfyrirtækinu La Rose Noir í Hong Kong.

Ágúst var spurður á fundinum hvers vegna Bakkavör hefði ekki fyrr gefið upp kaupin á hlutnum í Greencore. Hann sagði að það hefði verið af samkeppnisástæðum.

Richard Howes, nýr fjármálastjóri Bakkavarar, bætti því við að þar sem um skiptasamning hefði verið að ræða, ekki bein kaup, hefði félaginu ekki borið nein skylda til að upplýsa um viðskiptin.