Dr. Ágúst Einarsson hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarmennsku í Framtakssjóði Íslands. Aðalfundur sjóðsins verður haldinn næstkomandi fimmtudag, þar sem ný stjórn verður kjörin.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá FSÍ.  Ágúst hefur verið formaður sjóðsins frá upphafi en sjóðurinn er í eigu lífeyrissjóða auk Landsbanka Íslands og VÍS. Á árinu 2010, sem var fyrsta heila starfsár sjóðsins, skilaði Framtakssjóður Íslands 700 milljóna króna hagnaði og voru heildareignir í árslok 5,6 milljarðar króna.

„Það hefur verið ákaflega gefandi að vinna að uppbyggingu Framtakssjóðs Íslands með starfsfólki og samstarfsfólki í stjórn. Nú eru ákveðin kaflaskil í starfsemi sjóðsins; uppbygging eignasafns er vel á veg komin og sjóðurinn búinn að festa sig í sessi sem virkur fjárfestir í íslensku atvinnulífi. Afkoma sjóðsins á fyrsta starfsári ári var góð; ávöxtun eigin fjár var 49% og ráðinn hefur verið góður og samhentur hópur starfsmanna til sjóðsins. Það er því með nokkru stolti sem ég kveð Framtakssjóð Íslands að loknum þessum uppbyggingarfasa,“ segir Ágúst Einarsson í tilkynningu.