Hagnaður Bakkavarar nam 1,9 milljónum punda á þriðja ársfjórðungi. Þetta jafngildir 390 milljónum íslenskra króna. Til samanburðar nam hagnaður Bakkavarar á sama tíma í fyrra 2,8 milljónum punda og nemur samdrátturinn 32% á milli ára.

Fram kemur í uppgjöri Bakkavarar sem birt var í dag að tekjur félagsins námu 412,1 milljón punda á fjórðungnum samanborið við 396,1 milljón á sama tíma í fyrra. Þá nam rekstrarhagnaður 18,3 milljónum punda sem var rúmlega 21% aukning á milli ára.

Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, skrifar í uppgjörinu að hátt innkaupaverð hafi sett mark sitt á fjórðunginn og þar með afkomu Bakkavarar. Gert sé ráð fyrir því að aðstæður verði áfram erfiðar og krefjandi, ekki síst þar sem verðbólga hafi aukist, verð hækkað og haldi neytendur því fast um budduna. Ekki eru merki um að neysla sé að aukast í Bretlandi, að sögn Ágústar.