Ágúst Ólafsson fréttamaður hefur verið ráðinn svæðisstjóri RÚV á Akureyri. Ágúst hefur áralanga reynslu sem fréttamaður hjá Stöð 2 og Bylgjunni og hjá RÚV. Jafnframt var Ágúst ráðgjafi í almannatengslum um nokkurra ára skeið. Ágúst var stöðvarstjóri RÚV á bæði Austurlandi og Norðurlandi um árabil.

Svæðisstjóri fer fyrir starfsemi RÚV á landsbyggðinni og ber ábyrgð á frétta- og dagskrárþjónustu við landið allt í öllum miðlum. Svæðisstöðvarnar eru mikilvægur liður í að uppfylla þjónustuhlutverk RÚV og starfar þar öflugur hópur fólks með mikla reynslu og þekkingu. RÚV ætlar að halda áfram að efla starfsemi sína á landsbyggðinni, þróun og uppbyggingu til framtíðar en Ágúst mun leiða þessa vinnu. Þá er einnig fyrirhuguð ráðning dagskrárgerðarmanns RÚVAK fyrir útvarp (Rás 1 og Rás 2) en það starf verður auglýst nú um helgina.