Stjórn Jarðborana hefur ráðið Ágúst Torfa Hauksson, verkfræðing, sem nýjan forstjóra Jarðborana hf. Hann mun hefja störf á næstunni, samkvæmt samkomulagi við fyrri vinnuveitanda. Greint er frá ráðningunni á vefsíðu félagsins.

Á árunum 2005 til 2011 var Ágúst framkvæmdastjóri hjá Brim hf. á Akureyri en frá árinu 2011 hefur hann starfað sem forstjóri Norðurorku. Hann tekur við starfi forstjóra af Bent S. Einarssyni. Í febrúar var tilkynnt að hann hafi ákveðið að láta af störfum en hann tók við sem forstjóri Jarðborana árið 1989.

Ágúst er 37 ára gamall vélaverkfræðingur. Hann lauk B.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands árið 1999 og meistaranámi við University of British Columbia í Kanada árið 2001. Ágúst hefur m.a. stundað rannsóknir í varmafræðum við University of British Columbia og unnið hjá VGK verkfræðistofunni m.a við verkefni tengd orkuvinnslu og nýtingu jarðvarma.  Hann er kvæntur Evu Hlín Dereksdóttur, verkfræðingi og eiga þau tvær dætur.