Ágúst Torfi Hauksson, verkfræðingur hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Norðlenska. Hann mun taka við starfinu af Sigmundi E. Ófeigssyni sem lætur nú af störfum eftir 14 ára starf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Ágúst Torfi lauk B.Sc. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1999 og M.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá University of British Columbia, Kanada árið 2001.

Á árunum 2005-2011 var hann framkvæmdastjóri hjá Brim hf., er sneri að stjórnun á umsvifum félagsins við Eyjafjörð. Á árunum 2011-2012 var hann forstjóri Norðurorku hf., á Akureyri. Á árinu 2012 var hann forstjóri Jarðborana hf., en hefur frá árinu 2013 verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi í verkefnum tengdum sjávarútvegi og orkumálum. Þá hefur hann setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, lífeyrissjóðs og félaga.