Ágústa Katrín Auðunsdóttir hefur verið ráðin í stöðu sérfræðings á fjármálasviði Eignaumsjónar sem hefur sérhæft sig í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög. Markmiðið er að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði og auðvelda störf eigenda og hússtjórna að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Ágústa er með MCF - meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og BSc - gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á reikningshald. Hún kemur til Eignaumsjónar frá Nordic Visitor, þar sem hún sinnti einnig sérfræðistörfum á fjármálasviði. Þar á undan var hún bókhaldsfulltrúi hjá Lyfju.

Fjármálasvið er eitt þriggja meginstarfssviða Eignaumsjónar og mun Ágústa jöfnum höndum sinna þjónustu við ört fjölgandi viðskiptavinahóp félagsins og greiningarvinnu til stjórnenda.

Um Eignaumsjón

Eignaumsjón tók til starfa árið 2001 og er brautryðjandi á Íslandi í heildarþjónustu við rekstur atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Skrifstofa Eignaumsjónar er á Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík og er Ágústa boðin velkomin í öflugan hóp starfsfólks félagsins.